Veldu hverfi til sjá stöðu hugmynda fyrir 2015

Það er líka hægt að sjá stöðu framkvæmda hugmynda á Framkvæmdasjá

Vesturbær Miðborg Hlíðar Háaleiti og Bústaðir Breiðholt Árbær Grafarvogur Laugardalur Grafarholt og Úlfarsárdalur Kjalarnes

Betri hverfi 2015 - stutt yfirlit

Betri hverfi 2015 er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í hverfum Reykjavíkurborgar. Verkefnið hefst í október 2014 og stendur út árið 2015. Íbúar geta tekið þátt og fylgst með verkefninu á samráðsvefnum www.betrireykjavik.is , á Facebook: http://www.facebook.com/Betri.Reykjavik eða í gegnum sína þjónustumiðstöð eða hverfisráð. Verkefnið byggir á hugmyndum um að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Verkefnið er með svipuðu sniði og Betri hverfi 2014 og er byggt á reynslu fyrri ára.

Fjármögnun og skipting milli hverfa

Gert er ráð fyrir alls 300 milljónum sem skiptast á milli hverfa samkvæmt fastri fjárhæð og íbúafjölda. Sjá nánar...

Hvernig hugmyndir?

Um er að ræða verkefni til að bæta umhverfi og möguleika til útivistar og samveru, bæta aðstöðu eða tækifæri til leikja eða afþreyingar, hvetja til aukinna hjólreiða eða bæta aðstöðu og möguleika gangandi eða notenda strætó. Sjá nánar...

Hvað mega verkefnin kosta?

Verkefni geta verið stór og smá en mega ekki kosta meira en það sem viðkomandi hverfi hefur til umráða. Fagteymi sérfræðinga á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar metur hvort hægt sé að framkvæma verkefni, áætlar kostnað og upplýsir um það. Sjá nánar...

Hvenær get ég sent hugmyndir inn?

Opið er fyrir innsendingu hugmynda frá 8. október til 7. nóvember 2014. Sjá nánar...

Hvernig virkar samráðsvefurinn?

Þeir sem vilja setja inn hugmynd á vefinn verða að vera skráðir notendur Betri Reykjavíkur. Hugmyndir eru settar inn á vefnum undir því hverfi sem viðkomandi kýs. Samráðið felst ekki síst í því að kynna sér hugmyndir annarra, ræða, bæta við eigin rökum og gefa þeim vægi. Eftir að innsendingu lýkur verður hægt að rökstyðja hugmyndir frekar, ræða þær og gefa vægi - allt til 1. janúar 2015. Sjá nánar...

Hverfisráð stilla hugmyndum upp

Að loknu mati fagteymis umhverfis- og skipulagssviðs og samtali um hugmyndir, stilla hverfisráð hugmyndum upp þannig að íbúar geti valið á milli þeirra í kosningu. Sjá nánar...

Hverfakosning

Rafræn atkvæðagreiðsla um verkefni fer fram í febrúar/mars 2015 á sérstöku vefsvæði og gefst þar íbúum Reykjavíkur kostur á að velja milli verkefna. Vakin er athygli á því að ekki er um að ræða íbúakosningu í skilningi 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012. Sjá nánar...

Framkvæmd verkefna

Eftir að úrslit liggja fyrir verða valin verkefni hönnuð, boðin út og framkvæmd út árið 2015. Leitast verður við að hafa gott samráð við hugmyndahöfunda og hverfaráð um framkvæmdir. Sjá nánar...

Hvaða hugmyndafræði liggur að baki Betri hverfum?

Verkefnið byggir á hugmyndum um umræðulýðræði, þátttökulýðræði, þátttökufjárhagsáætlunargerð - að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku, umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði. Verkefnið er frekari útfærsla á Betri hverfum 2012. Byggt er á reynslu fyrri ára en jafnframt leitað í smiðju sérfræðinga og annarra borga um heiminn þar sem þátttökufjárhagsáætlunargerð hefur verið reynd.

Tímasetningar

8. okt til 7. nóv 2014

nóvember 2014

desember 2014

10. jan 2015

janúar 2015

febrúar 2015

2015

Samráðsvefur

Fagteymi

Samráðsfundir

Hverfaráð

Undirbúningur

Hverfakosning

Framkvæmd

Íbúar setja inn hugmyndir, rökstyðja og ræða. Starfsmenn borgarinnar meta hugmyndir og leiðbeina

Lokað fyrir innsendingu en áfram hægt að rökstyðja, ræða og gefa vægi til 1. janúar. Starfsfólk metur hugmyndir

Fagteymi umhverfis- og skipulagssviðs fundar með hverfaráðum. Viðbrögð við innkomnum hugmyndum og mati fagteymis.


Hugmyndir teknar af vef. Endanleg uppstilling allt að 20 verkefna í hverju hverfi.

Listar með verkefnum útbúnir og kynntir. Undirbúningur fyrir rafræna atkvæða-greiðslu.

Íbúar velja verkefni rafrænt á sérstöku vefsvæði

Verkefni hönnuð, boðin út og framkvæmd

Skipting fjármagns eftir hverfum

Hvað er fjármagnið mikið og í hvernig verkefni fer það?

Gert er ráð fyrir 300 milljónum króna til verkefnisins og er það sama upphæð og verið hefur undanfarin þrjú ár. Það skal tekið fram að fjármagn til Betri hverfa 2015 er aðeins hluti af því fé sem áætlað er að verði varið til framkvæmda í hverfunum á árinu. Fjármagn er eins og áður bundið við smærri nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni en íbúar þurfa ekki að meta hvorum flokknum verkefnin tilheyra. Starfsmenn borgarinnar munu meta það og finna verkefnum kostnaðarstað.

Hvernig er fjármagninu skipt milli hverfa?

Fjármagni er skipt milli hverfa með sama hætti og síðustu þrjú ár. Til að tryggja minnstu hverfunum ákveðna lágmarksfjárhæð til umráða er hluta fjárheimildarinnar skipt jafnt milli hverfa. Það fjármagn sem eftir stendur skiptist á milli hverfanna í réttu hlutfalli við íbúafjölda.

Líkt og árin 2013 og 2014 er fyrstu 75 milljónunum þannig skipt jafnt milli hverfanna tíu og koma því að lágmarki 7,5 milljónir króna í hlut hvers hverfis. Því sem eftir stendur, eða 225 milljónum króna, er skipt á milli þeirra 120.853 íbúa sem staðsettir eru í hverfum borgarinnar þannig að í hlut hvers og eins koma kr. 1.861,766. Þessi tala er svo margfölduð með íbúatölu hvers hverfis og fæst þá heildarfjárheimild hverfisins. Fjöldi íbúa og skipting milli hverfa miðast við 1. janúar 2014.*

Betri hverfi 2015

Skipting fjármagns eftir hverfum

Hverfi

Íbúar

Lágmark

Skv. íbúafjölda

Samtals

Árbær

10.707

7.500.000

19.933.928

27.433.928

Breiðholt

20.917

7.500.000

38.942.558

46.442.558

Grafarholt og Úlfarsárdalur

6.090

7.500.000

11.338.155

18.838.155

Grafarvogur

17.909

7.500.000

33.342.366

40.842.366

Háaleiti og Bústaðir

14.313

7.500.000

26.647.456

34.147.456

Hlíðar

9.828

7.500.000

18.297.436

25.797.436

Kjalarnes

861

7.500.000

1.602.980

9.102.980

Laugardalur

15.838

7.500.000

29.486.649

36.986.649

Miðborg

8.449

7.500.000

15.730.060

23.230.060

Vesturbær

15.941

7.500.000

29.678.411

37.178.411

Samtals:

120.853

75.000.000

224.999.999

299.999.999

* Tölurnar eru frá 1. janúar 2014 og byggja á gögnum skrifstofu gæða og rannsókna hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Heildaríbúafjöldi var skv. þessu 121.230 en þar af eru 134 skráðir í sendiráð erlendis og 243 óstaðsettir í hús. Eftir standa 120.853 íbúar sem dreifast á hverfin skv. meðfylgjandi töflu.

Hvernig hugmyndir?

Skráning á samráðsvef

Þegar hugmynd er sett inn á samráðsvefinn www.betrireykjavik.is þarf fyrst að skrá sig á vefinn, velja hverfi og huga að því að heiti hugmyndar og lýsing sé skýr.

Hugmyndir sem bæta umhverfi, útivistarmöguleika og samgöngur gangandi og hjólandi

Þegar hugmynd er sett inn í Betri hverfi þarf hún að falla að eftirfarandi skilgreiningu:

  • Vera verkefni sem haft getur áhrif á umhverfi og eða möguleika til útivistar og samveru, til dæmis: Bekkir, aukinn trjágróður, dvalarsvæði, berjarunnar, útilistaverk, fegrunarverkefni o.fl.

  • Vera verkefni sem haft getur áhrif á aðstöðu eða tækifæri til leikja eða afþreyingar, t.d.: bæta leiksvæði, endurnýja leiktæki, lagfæra sparkvelli o.fl.

  • Vera verkefni sem hvetur til aukinna hjólreiða, bætir aðstöðu og eða möguleika gangandi eða notenda strætó, til dæmis: stígatengingar, lýsing gönguleiða, lagfæring gönguslóða o.fl.

Miðað er við hugmyndir séu það stórar að þær geti nýtst íbúum hverfisins í heild. Hugmyndum um smærri viðgerðir eða aðgerðir á einstökum stöðum o.þ.h. verður beint inn á ábendingavefinn Borgarlandið.

Er hugmyndin framkvæmanleg?

Það verður að vera hægt að meta hugmynd og útfæra áður en að endanlegu vali kemur í febrúar/mars og framkvæma hana á árinu 2015. Hugmyndin þarf að vera verkefni í verkahring borgarinnar og vera á borgarlandi. Hugmyndin verður líka að falla að stefnu og skipulagi borgarinnar og má ekki þarfnast flókinna og/eða umfangsmikilla undirbúnings-, samráðs- eða samningaviðræðna við aðrar stofnanir og aðila, s.s. vegagerð eða ríki. Hugmyndir sem varða svæði, s.s. skólalóðir, sem þegar eru í öðru ferli í borgarkerfinu verða meðhöndlaðar sem ábendingar inn í það ferli en koma ekki til hverfakosningar. Fagteymi umhverfis- og skipulagssviðs metur þessa þætti og kveður úr um það hvort hægt sé að ráðast í framkvæmdina eða ekki.

Hvað má hugmyndin kosta?

Um er að ræða smærri viðhalds- og nýframkvæmdaverkefni. Þegar hugmynd er sett inn er mikilvægt að reyna að gera sér grein fyrir kostnaðinum við framkvæmd hennar. Hugmynd má ekki kosta meira en það fjármagn sem hverfið hefur til umráða. Ekki verður kosið um hugmyndir sem fara framyfir þá upphæð. Fagteymi sérfræðinga á umhverfis- og skipulagssviði mun meta kostnað og leiðbeina um hann.

Hvernig lýsi ég hugmyndinni?

Þegar ný hugmynd er sett inn er mikilvægt að heiti hugmyndarinnar sé lýsandi og að hugmyndin sé vel vel útskýrð og rökstudd þannig að aðrir eigi auðvelt með að átta sig á hvað um er að ræða.

  • Hvað snýst verkefnið um?
  • Hvað þarf að gera?
  • Hvar á að framkvæma verkefnið?

Þessi atriði geta skipt miklu um hvort hugmyndin nær athygli annarra íbúa og fær það vægi sem til þarf til að um hana verði kosið á síðari stigum. Greinargóð lýsing á hugmyndinni getur jafnframt auðveldað starfsfólki borgarinnar að meta hana, s.s. kostnaðinn við framkvæmd hennar.

Frá hugmynd til framkvæmda - hver gerir hvað og hvenær?

Betri Reykjavík - opið fyrir innsendingu hugmynda til 7. nóvember 2014

Þeir sem vilja setja inn hugmynd verða að vera skráðir notendur Betri Reykjavíkur. Opið er fyrir innsendingu hugmynda til 7. nóvember 2014. Öllum stendur til boða að nota almenningstölvur í bókasöfnum og þjónustumiðstöðvum borgarinnar í þessu skyni.

Betri Reykjavík - ný hugmynd sett inn

Þegar ný hugmynd er sett inn á Betri Reykjavík - Betri hverfi þarf fyrst að velja það hverfi sem hún á að fara í. Hægt er að setja inn hugmynd í hvaða hverfi borgarinnar sem er, óháð búsetu. Með sama hætti er hægt að bæta við rökum við hugmynd eða gefa henni vægi sitt.

Mikilvægt er að hafa í huga þegar hugmynd er sett inn, að hún kosti ekki meira en það fjármagn sem hvert hverfi hefur til umráða. Einnig að hún falli að þeirri lýsingu og skilmálum verkefna sem borgin er að óska eftir. Ekki verður kosið um verkefni sem kosta meira en það fjármagn sem hverfi hefur, og ekki heldur um þau sem falla ekki að skipulagi, hlutverki eða stefnu borgarinnar. Starfsfólk Reykjavíkurborgar mun leiðbeina um þetta á samráðsvefnum.

Betri hverfi - undankeppni hugmynda til 1. desember

Samráðið felst ekki síst í því að íbúar kynni sér hugmyndir annarra, ræði þær, bæti jafnvel við eigin rökum og gefi þeim vægi sitt (hér gilda sömu reglur og á Betri Reykjavík). Allar hugmyndir og rökstuðningur úr ferlinu eru sett á samráðsvefinn til umræðu.

Hægt er að ræða hugmyndir og gefa vægi til 1. desember 2015. Mikilvægt er að hafa í huga að á þessu stigi er um undankeppni að ræða - stuðningur á samráðsvefnum er ekki endanlegt val. Það fer fram á sérstöku vefsvæði sem verður opnað í lok febrúar.

Stuðningur við hugmynd í undankeppninni er mikilvægur til að hafa áhrif á það hvort hún eigi möguleika á því að komast áfram í lokavalið. Þó skal hafa í huga að jafnvel vinsælar hugmyndir geta verið slegnar út ef í ljós kemur að þær uppfylla ekki skilyrði um kostnað og framkvæmanleika.

Mat fagteymis

Fagteymi starfsfólks á umhverfis- og skipulagssviði byrjar að meta hugmyndir um leið og þær fara að berast inn á Betri Reykjavík. Í þessari vinnu felst að hugmyndirnar eru metnar út frá kostnaði og hvort hægt sé að framkvæma þær. Hugmyndir mega ekki kosta meira en sem nemur fjárheimild viðkomandi hverfis. Hugmyndir verða að vera í verkahring borgarinnar og á svæðum sem tilheyra borginni. Eins verða þær að falla að skipulagi hennar og stefnu.

Niðurstöðum fagteymis verður miðlað við hverja hugmynd á samráðsvefnum jafnóðum þannig að notendur viti að hugmyndin komi ekki til álita í óbreyttri mynd. Reynt verður að kalla eftir frekari lýsingu og aðlaga hugmynd í samvinnu við hugmyndahöfund.

Þær hugmyndir sem eru óframkvæmanlegar eða sprengja fjárhagsramma hverfisins og sem ekki næst með góðu móti að aðlaga kröfunum í samtali fagteymis við hugmyndahöfunda, detta sjálfkrafa út og verða ekki í boði við hverfakosningu. Þegar hugmyndir detta út með þessum hætti færast allar hugmyndir sem neðar eru upp um eitt sæti.

Hugmyndirnar geta orðið færri en 20 fyrir hvert hverfi ef ekki hafa borist nógu margar hugmyndir í öllu ferlinu og/eða ef ekki hefur tekist að fella þær að þeim skilgreiningum um hugmyndir sem hér er kallað eftir.

Hverfisráð stillir verkefnum upp

Í byrjun janúar fer hverfisráð yfir verkefni í þeirri vinsældaröð sem þau birtast á samráðsvefnum. Hverfisráð skoðar m.a. dreifingu verkefna um hverfið og hvaða verkefni munu falla út eftir yfirferð fagteymis. Telji hverfisráð að röðun þeirra verkefna sem eftir standa (allt að 20) sé með þeim hætti að verulega halli á ákveðna hverfishluta, getur það reynt að jafna leikinn með því að skipta út allt að 5 af 20 efstu verkefnum fyrir verkefni neðar á listanum. Þetta er auðvitað að því gefnu að verkefni séu fleiri en 20. Ráðið skal við þetta hafa í huga vinsældir þeirra hugmynda sem skipt er út. Miðað er við að niðurstaða hverfisráðanna liggi fyrir ekki síðar en 10. janúar.

Hverfakosning

Þegar verkefnum hefur verið stillt upp fyrir hvert hverfi gefst íbúum Reykjavíkurborgar kostur á að velja á milli allt að 20 verkefna í hverju hverfi. Valið fer fram á sérstöku vefsvæði þar sem notandi auðkennir sig með öruggum hætti og þar sem atkvæði er dulkóðað. Þannig er aldrei hægt að tengja atkvæði við einstaklinga. Þátttaka er opin öllum sem náð hafa 16 ára aldri þann 31. desember 2014 og hafa lögheimili í Reykjavík þegar valið fer fram. Val verkefna stendur yfir í vikutíma í febrúar og mars 2015 en fyrirkomulag verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Vakin er athygli á því að ekki er um að ræða íbúakosningu í skilningi 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012.

Framkvæmd verkefna

Verkefni verða hönnuð, boðin út og framkvæmd á árinu 2015 og verður upplýsingum um framgang þeirra miðlað á vef Reykjavíkurborgar og á Betri Reykjavík. Leitast verður við að hafa samráð við hugmyndasmiði og hverfisráð um útfærslu verkefna - ekki síst í þeim tilfellum að breyta þurfi verkefnum.

Hvað verður um hugmyndir sem ekki hljóta framgang?

Öllum hugmyndum sem detta út í ferlinu verður komið í ákveðinn farveg hjá Reykjavíkurborg, t.d. sem ábendingum til fagráða eða sem innleggi í skipulagsumræðu.

Hvað ef ég get ekki notað samráðsvefinn?

Þeir sem ekki geta sett fram hugmyndir á samráðsvef, s.s. vegna fötlunar, býðst til 7. nóvember að senda hugmyndir sínar með tölvupósti á betrireykjavik@ibuar.is eða með pósti stíluðum á Betri Reykjavík, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík. Einnig er hægt að hafa samband við þjónustumiðstöðvar í hverfunum eða þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411-1111 og óska eftir aðstoð.

Sett á samráðsvefinn Betri Reykjavík - Betri hverfi þann 8. október 2014

Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara