Loka Sundlaugaveginum
Fyrir stuttu síðan var 13 ára stúlka keyrð niður af leigubíl á fullum hraða á gatnamótum Sundlaugavegs og Reykjavegs. Hún kastaðist upp á húdd leigubílsins og braut framrúðuna á honum. Annar fóturinn á henni mölbrotnaði og óskiljanlegt að ekki verr hafi farið. Fleiri slys hafa orðið á fólki við þessa götu. Ég varð sjálfur vitni af því þegar köttur var steindrepinn af bíl á Sundlaugaveginum. Flutningabílar keyra Sundlaugaveg á nóttunni. Þetta er íbúðargata ekki hraðbraut fyrir bílalestir!
Það er einmitt vandamálið, bílstjórar fara ekki varlega á Sundlaugaveginu. Ég hef t.d. tvisvar lent í að tekið sé fram úr mér á þessari götu. Það myndi hægja á umferðinni ef henni yrði beint niður á Sæbraut og inn Dalbraut sem er ekki íbúðargata í stað þess að senda hana beina leið gegnum íbúðarhverfi.
Það er nýleg strætóvæn hraðahindrun við ljósin sem gerir lítið. Kannski ef hraðahindrunum væri dritað niður eftir öllum veginum þannig að hann yrði nánast ófær eins og Digranesvegur.
Er ekki frekar ráð að lækka hámarkshraða í þessari götu og/eða setja upp hraðahindranir?
Fólk verður að fara varlega í umferðinni. Ég tel enga lausn að loka götunni vegna þessa, vegna þess að ef svo gerist gæti fólk, sem á leið um þessa götu, lent í því að fara einhverjar krókaleiðir.
Ef sundlaugaveginum væri lokað á gatnamótum Reykjavegar og Sundlaugavegs kæmi það í veg fyrir þennan ótrúlega flöskuháls sem myndast hérna milli 4 og 6. Umferðaröryggi barna ykist stórkostlega. Ég hef daglega horft upp á fólk keyra þarna yfir á rauðu ljósi, jafnvel þó að barn geri sig líklegt til að fara yfir götuna á grænu gönguljósi. Ég sé líka fólk notar þessa götu til að stytta sér leið þó það gæti auðveldlega notað t.d. Sæbraut. Flutningabílar fara hér um á nóttunni og bílar keyra hér yfirleitt eins hratt og þeir komast þegar umferð er lítil. Nokkrum sinnum hef ég lent í því að bílar reyna að taka fram úr með tilheyrandi veseni fyrir umferðina á móti til þess eins að lenda á rauðu ljósi. Það er ljóst að annaðhvort þarf að loka þessari götu í annan endan eða gera að einstefnugötu frá austri til vesturs. Að auki er algjörlega fáránlegt að hámarskhraði skuli ekki vera 30 km/klst eða einhverjar hraðahindranir sem virka. Eins og er er Sundlaugavegurinn eins og aðlaðandi kappakstursbraut nema nátturulega milli 4 og 6 þegar maður veit varla hvort hér er bílastæði eða gata. Það sem einnig mætti benda á er að þegar fólk fer á grænu gönguljósi yfir Sundlaugaveg er einnig grænt beyjuljós fyrir bíla frá Reykjavegi yfir á Sundlaugaveg til vesturs. Vegna þessa hafa orðið alvarleg umferðaslys. Ég skora á þá sem einhverju ráða í þessum götumálum að ráða þessu ástandi bót.
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation