Ábending um orðalag og málnotkun

Ábending um orðalag og málnotkun

Ástæða er til að fagna þeim drögum sem hér liggja frammi til kynningar, en úr því beðið er um athuasemdir íbúa þá kvikmaði eftirfarandi hugleiðing við lesturinn. Mikilvægt er að stefna sem þessi sé skrifuð á góðu máli, orðaforði sé ríkur og orðanotkun markviss. Nokkuð skortir á í þeim drögum sem nú liggja fyrir, sérstaklega skal vakin athygli á orðalagi framtíðarsýnar á fjórðu glæru: "Reykjavík er virk, áhrifamikil og virt borg. Hún er aðlögunarhæf og eftirsóknarverð." Hér er borgin persónugerð, sem mörg dæmi eru um í skáldverkum, en kann að virka hjákátlegt í því samhengi sem hér um ræðir. Sérstaklega á þetta við um hugtökin "aðlögunarhæf og eftirsóknarverð". Borg getur að sjáfsögðu verið eftirsóknarverður staður til búsetu eða dvalar (eins og sagt er aftar í drögunum), en þegar orðið "staður" fylgir ekki þá verður setningin síður merkingarbær. Svo vaknar spurningin um það hvort borg geti verið aðlögunarhæf? Auðvitað er hægt að laga borgina að hinu og þessu, en þá er borgin sjálf ekki gerandinn, heldur stjórnendur hennar eða íbúar. Svo geta íbúar borgarinnar líka sýnt aðlögunarhæfni, en slík hegðun er vart á færi borgarinnar sjálfrar, nema þá í skáldlegum texta þar sem borgin væri persónugerð. Þessu til viðbótar má benda á að lýsingaroðrið "aðlögunarhæfur" er ekki að finna í íslenskri nútímamálsorðabók á vef Árnastofnunar, þar er hins vegar fjallað um kvk nafnorðið aðlögunarhæfni sem merkir hæfileika til að laga sig að nýjum/breyttum aðstæðum. Loks skal bent á mikilvægi þess að hugtakið "sjálfbærni" sé notað af varkárni. Það fer t.d. ekki vel á því að tala um að borgin eigi að vera "efnahagslega, umhverfislega og félagslega sjálfbær". Þar sem hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar gengur út á skilgreint jafnvægi milli þessara þriggja þátta, drepur það merkingu hugtaksins á dreif ef talað einangrað um "efnahagslega sjálfbærni" eða "félagslega sjálfbærni", eins og gert er á glærunni um "hringrás markmiða". Annars staðar en þarna er hugtakið notað af góðum skilningi.

Points

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information