Trjágarður á Selhrygg í Breiðholti.

Trjágarður á Selhrygg í Breiðholti.

Hvað viltu láta gera? Skipuleggja svæðið, gróðursetja tré og leggja malarstíga. Hvers vegna viltu láta gera það? Áhugavert að fylgja eftir framkvæmd þessa verkefnis sem hófst 1985. Svæðið er þegar mikið notað til útivistar og leikja. Á mótum Breiðholts og Kópavogs er allstórt svæði sem skilgreint var sem útivistarsvæði við skipulagningu Seljahverfis. Stærstur hluti svæðisins voru ógrónir melar, Smalahóll, en einnig voru ákveðin stórgrýtissvæði látin njóta sín áfram en þau eru mjög skemmtileg og svipfögur og draga að sér börn í leik. Árið 1985 á stórafmæli Skógræktarfélags Íslands beittu sér Þórður Þorbjarnarson, borgarverkfræðingur og Hafliði Jónsson, garðyrkjustjóri í samstarfi við Skógræktarfélags Reykjavíkur fyrir því að hvetja íbúa sem byggðu sér heimili á jaðarsvæðum borgarinnar að taka að sér ræktun melanna og lögðu til þess nokkuð magn trjáplantna. Nokkrir nýbúar við Smalahól tóku að sér gróðursetningu 200 birkiplantna á svæðinu og hliðstæðar gróðursetningar má sjá á skilum Reykjavíkur og Kópavogs. Eftir uppbyggingu Kópavogs að sunnan hefur garðyrkjudeild þess bæjarfélags gróðursett fjölbreytta trjálundi að fjölnota malbikuðum göngustíg sem liggur eftir endilöngum Selhrygg. Íbúar héldu gróðursetningum áfram undir eigin vélarafli með eigin trjáplöntum auk þess sem lúpína nam land á svæðinu. Lúpínan í samstarfi við áhugasama þresti hefur og leitt til mikillar fjölgunnar reynitrjáa og berjaplantna einkum ribs- og sólber sem nýta niturnám lúpínunnar. Árangurinn af þessu frumkvæði borgarinnar og samstarfi við íbúa má glögglega sjá á frábærri loftmynd á vef borgarinnar þar sem hægt er að bera saman mynd af svæðinu frá 1996 og 2020. Íbúar á nálægum svæðum finna mikinn jákvæðan mun á veðurfari einkum á vetrum. Annar árangur sem vert er að tíunda er að borgin reisti lítið skýli á Smalahól auk þess að sinna þar skipulegri söfnun úrgangs. Á starfstíma Jóns Gnarr úthlutaði borgin leikskólum hverfisins stórgrýtissvæði upp af Skriðuseli sem er mikið notað auk þess sem trjáreiturinn sem er upp af Skagaseli og Stapaseli nýtist einnig þessum nemendahópi og kennurum þeirra í spennandi skógar- og fræðslu- og ævintýraleiðangrum. Aukin áhersla á gönguferðir, hundahald og aðrir áhrifaþættir hafa stóraukið aðdráttarafl svæðisins og umferð jókst verulega þannig að troðningar og flög sköpuðust. Á árinu 2019 styrkti Hverfið mitt gerð malarstígs upp úr Skriðuseli um veðurskýlið og að göngustígnum á Selhrygg. Þessi framkvæmd mæltist mjög vel fyrir meðal íbúa og starfsliðs leikskólanna og jók enn notagildi svæðisins. Verkinu var þó ekki lokið að fullu þar sem fjármagn þraut. Verkefni þetta fellur vel að áætlun borgarinnar í loftslagsmálum 2021-2025. Framkvæmd verkefnisins: Skipulag og hönnun: Ljóst er að mikil þörf er á aukinni malarstígagerð til dæmis frá skýlinu til vesturs að Stapaseli en hann átti að leggja við gerð malarstígsins árið 2019 en náðist ekki þar sem úthlutunin þá var þrotin. Við áframhaldandi gróðursetningar á svæðinu væri mjög æskilegt að geta byggt á hönnum gönguslóða um svæðið og hugmyndum um tegundaval.

Points

Ég tel jákvætt og mikilvægt að framkvæmd þessa verðuga verkefnis sé fylgt eftir. Áframhaldandi gróðursetning trjáa og gerð malarstíga gerir svæðið heilsuvænt og lifandi!

Mjög verðugt og mikilvægt grænt verkefni sem skiptir miklu máli í uppbyggingu grænna svæða í Reykjavík

Snjöll tillaga, það eru margir sem njóta þess að ganga um þetta svæði á hverjum degi. Frekari uppbygging eykur ánægju allra. Hver vill eiga sér sveit í bæ?

Hér er mikilvægt og stórkostlegt framtak íbúa að ræða. Í áratugi hafa íbúar hlúð að reitnum og staðið að gróðusetningu sem hefur gert reitinn bæði aðlaðandi og eftirsóttann fyrir leik og heilsubótagöngur. Tillagan miðar að því að auka við malarstíg, hlúa að trjágarðinum með gróðursetningu og afmarka fallega reiti með merkingum og upplýsingum á gróðri. Hér er á ferð tillaga sem byggir á frumkvæði frumbyggja hverfisins sem mun auka lífsgæði íbúa um ókomna tíð fyrir lítið fé.

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information